Hvað viltu láta gera? Fyrir 4 árum kom ég þessari hugmynd í gegn hjá Betri Reykjavík. Framkvæmdin bar árangur og mikil ánægja með hraðamerkingarnar meðal flestra íbúa í hverfinu! Fjórum árum síðar eru þessar merkingar með öllu horfnar! Þrátt fyrir að fjöldi einstaklinga í hverfinu hafi sent beiðnir til Reykjavíkurborgar síðustu tvö sumur að skerpa á merkingunum hafa þessar beiðnir ekki þótt svo mikið sem svaraverðar og því sé ég mér ekki annað fært en að setja aftur inn þessa beiðni, sem snýr að öryggi barna og annarra gangandi vegfarenda í Suðurhlíðunum: Þrátt fyrir að vistgöturnar í Suðurhlíðunum séu merktar sem slíkar með til þess gerðu vistgötumerki eru hraðamerkingar hvergi að sjá og augljóst að margir ökumenn gera sér ekki grein fyrir að hámarkshraði í vistgötum er 15 km/klst. Ökumenn keyra því stundum of hratt miðað við þá staðreynd að ekki eru samfelldar gangstéttir þar að finna og búast má við börnum að leik á götunum - því gangandi vegfarendur eiga forgang í göturýminu. Hvers vegna viltu láta gera það? Hugmyndin snýr að öryggi barna og annarra gangandi vegfarenda í Suðurhlíðunum og merkingunum hefur ekki verið viðhaldið síðustu sumur! Sjá mynd af því hvernig merkingarnar líta út að vori 2019.
Hugmynd þessi var metin tæk af fagteymi sérfræðinga frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Allar tækar hugmyndir voru í framhaldi sýndar á opnum húsum í hverfum Reykjavíkurborgar á tímabilinu 3. - 13. júní, þar var þessi hugmynd valin til þess að vera á kjörseðli þíns hverfis. Hér má sjá lista yfir þær hugmyndir sem verða til kosninga í verkefninu Hverfið mitt þann 31. október - 14. nóvember nk. www.hverfidmitt.is Í kosningunni getur þú stjörnumerkt þína uppáhalds hugmynd og gefið henni þannig tvöfalt vægi!
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation