Hvað viltu láta gera? Skoða það hvernig megi gera Suðurgötu að einfaldri 1+1 götu með góðu flæði hjólandi vegfarenda, gangandi og almenningssamgangna. Taka mætti mið af framkvæmdum við Grensásveg. Samhliða mætti bæta við gróðri á umferðareyjur og við götukanta. Hvers vegna viltu láta gera það? Gatan er breið og sker háskólasvæðið í tvennt. Þar er mikið um hraðakstur enda gata sem byggð er eins og hraðbraut en aldrei er þó mikil umferð. Umhverfið er óspennandi fyrir hjólandi vegfarendur enda mikill hraði á bílunum. Þá tekur langan tíma fyrir fótfúna að þvera götuna, en gönguljósin eru helst til stutt. Ég tel að 1+1 gata anni umferðinni um Suðurgötu vel en hægi á henni og takmarki slysahættu. Þá má líka nefna að Suðurgötu var með öllu lokað á meðan undirgöng undir hana voru grafin en það virðist hafa farið alfarið framhjá landanum.
Árið 2014 héldu Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands hugmyndasamkeppni um skipulag Háskólasvæðisins. Sterkustu tillögurnar að mati dómnefndar endurhugsuðu Suðurgötuna sem mun þrengri götu. Tillaga ASK arkitekta gekk út á að mjókka hana niður í einfalda 1+1 götu en tillaga VA arkitekta bætti einnig við upphækkunum til að bæta aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi. Um Suðurgötuna fara ekki svo margir bílar að hún réttlæti 2+2 akreina veg. Það er mikið hagsmunamál að nýta rýmið betur.
Í þessu samhengi mætti líta til Sönder Boulevard í Kaupmannahöfn og inspírerast. Gatan var mjókkuð og útivistarsvæði sett í miðjuna (já taka tillit til veðurfars og annarra þátta).
Frá árinu 2007 hafa orðið að minnsta kosti 17 óhöpp með meiðslum á fólki á Suðurgötu skv. Slysakorti Samgöngustofu
Fagteymi sérfræðinga á umhverfis- og skipulagssviði hefur metið þessa hugmynd. Hugmyndin er ekki tæk í kosningu í verkefninu Hverfið mitt 2019 þar sem hún rúmast ekki innan fjárhagsramma verkefnisins. Hugmyndir er falla innan verkefna og valdheimilda Reykjavíkurborgar verður komið áfram sem ábendingu til viðeigandi deilda innan stjórnsýslu borgarinnar. Hér má sjá lista yfir þær hugmyndir sem verða til kosninga í verkefninu Hverfið mitt þann 31. október - 14. nóvember nk. www.hverfidmitt.is Í kosningunni getur þú stjörnumerkt þína uppáhalds hugmynd og gefið henni þannig tvöfalt vægi!
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation